Blóm í bæ hæhæhæ

Nú er bærinn minn orðinn enn fallegri en vanalega. Blóm útum allt og íbúarnir keppast um að reita arfa og gera allt fínt og flott. Minn garður verður ekki til sýnis núna útaf spýtnabraki og drasli allt í kring og sagandi og smíðandi vinnukarli, en hver veit nema maður bjóði uppá garðasúpu á næsta ári. En í staðinn verð ég með restina af blómavatnslitamyndunum (vá hvað þetta er langt orð) og eitthvað meira til sölu í Handmenntahúsinu við Breiðumörk. Ég hef alla tíð verið óskapleg mannafæla og hræðilegur sölumaður – þessi helgi er því tilvalin til að æfa sig aðeins og takast á við þetta og nú mega allir vara sig. Ég er með posa í láni í mánuð og allir sem koma núna í heimsókn gætu átt það á hættu að þurfa að kaupa eitthvað. Mynd eftir mig eða Úlf, gamlar spýtur úr kjallaranum frá Tolla, borga fyrir kaffið eða fengið gamla tölvuíhluti og snúrur á slikk.
En endilega kíkið við á Blóm í bæ – þemað í ár er Sirkus og bærinn hefur sjaldan verið skrautlegri.

Comments

 1. Steinunn frænka says:

  Jahá, hljómar vel.
  Hvur veit nema ég kaupi af ykkur Úlfi myndir!

  Persónulega líst mér betur á vinnumennina en spýturnar en það er auðvitað smekksatriði. Kaffi drekk ég ekki en aldrei að vita nema mann vanti íhluti fyrir hitt og þetta og snúrur á slikk? Hver getur hafnað slíku?

  Posinn sem þú ert með að láni er væntanlega ekki köttur eða hvað?
  Gangi þér vel að selja, frænka kær.
  Með þessu áframhaldi verður þú örugglega kosin sölumaður ársins, svo segja altjént fyrstu útgönguspár ;o)
  Sjáumst á sunnudaaaag.