Húsið er að gráta…

Einhvern tíma ætla ég að gefa út blað eins og dönsku Bo bedre blöðin eða Hús og híbýli. Nema mitt blað mun fjalla um alvöru heimili eins og þau eru í raun og veru.

Íris eins árs sá um stílíseringu fyrir þessa myndatöku. Hún valdi handahófskennt allskonar leikföng sem prýða hérna rándýra sérsmíðaða gluggakistu úr eik. Puttaförin úr glugganum eru sömuleiðis eftir Írisi og stóra bróður hennar, bæði innan og utan á glerinu. 

Fallegi pony hesturinn er úr Leikfangabúð í Reykjavík en snyrtibuddan var keypt í London 2007 í góðærinu. Gúmmí Grettir er leikfang frá mér og sömuleiðis plantan sem gefur stofunni skemmtilegan blæ. Gólfefnið er eldgamalt margniðurlímt stafaparket sem tekur vel við mjólkurslettum, cheeriosi og lífrænum rúsínum.