Híbýlaprýði

August 4th, 2022

Ég gleymi aldrei hvað vinkona mín sagði við mig þegar ég sagði henni að ég væri ófrísk (af Írisi). „jiiiii en gaman. Og svo verður allt fullt af krúttlegu dóti á gólfinu heima hjá þér“.

Þetta er staðan núna, rúmlega 9 árum seinna eftir þetta samtal…..

Krókódíll, skjaldbaka í brekkustól….. gæti verið að þjóðhátíð skriðdýra 2022 sé haldin í stofunni hjá mér?

Hrund í orlofi

August 3rd, 2022

Eftir rantið í síðasta pósti ákvað ég að fara með elsku manninum mínum út í buskann í útilegu þar sem væri ekkert internet. Reyndar var nú ekki heldur símasamband nema á köflum og það finnst mér virkilega óþægilegt þar sem ég hef verið þekkt fyrir að vera hrakfallabálkur og ná að meiða mig í asnalegustu aðstæðum. Nú síðast við að ganga upp stiga en ekki niður eins og annað venjulegt fólk sem dettur á niðurleið.

Síminn hefur aldeilis tekið sér sess í vöðvaminninu og ósjálfrátt grípur maður í hann til að skoða eitthvað sem skiptir auðvitað engu máli. Eftir að hafa reynt að tala svolítið saman eins og hjónin í áramótaskaupinu 1984 sem höfðu keypt sér brauðrist í staðinn fyrir videotæki áður en BSRB verkfallið skall á, spiluðum við á spil eins og gamlar risaeðlur. Auðvitað mundum við næstum engar spilareglur lengur nema fatapóker og rommí og gátum svo ekki einu sinni googlað þær þegar þurfti.

Við vorum á jeppa með gamlan tjaldvagn á loftpúðum með gasgrill og vorum fyrst alein þangað til Þjóðverji á hjóli kom skröltandi til okkar og freistaðist til að tjalda alveg oní okkur þar sem væri gott skjól. En eftir að hafa horft á aðfarirnar við grillið (sem var myglað og þurfti að brenna af því allskonar lífríki og vistkerfi undir golfregnhlíf) og þegar hann sá mig í dúnúlpunni með stóra gashitarann minn hætti hann snarlega við og kom sér í skjól 30 metrum frá.

Næst mættu á svæðið tveir stórir sérsmíðaðir húsbílar. Tolli klappaði saman lófunum af gleði og sagði að loksins væru swingers-vinir hans komin og nú yrði sko partý. Auðvitað er örugglega besta leiðin til að hittast í svona klúbbum í afdölum einhversstaðar á Íslandi þar sem nágrannarnir eru ekki með nefið úti í glugga og ekkert internet að trufla. Ég hefði stolið hjólinu af karlinum og hjólað af stað heim ef Tolli hefði ekki verið að grínast. En hvað veit maður. Kannski var internetið og algorithminn búið að steikja í honum heilann og næst myndum við kaupa húsbíl.

Við vorum með tvær bækur með í bílnum. Vegahandbókina og svo gönguleiðabók. Ég komst að því að ég hef verið áður á allskonar stöðum þarna í kring en ég man ekki hvenær eða með hverjum og um leið og ég veit hvað sandur, vatn eða fjall heitir gleymi ég því strax aftur. Best að taka það fram strax að við tjölduðum við Hagavatnsskála ef ég þarf að rifja upp síðar. Gengum upp að Farinu og niður að Hagavatni í hífandi roki. Fegurðin þarna í kring er dásamleg og ógurleg í senn. En blúndurassinn minn getur ekki sest á kamar án þess að ég kúgist og þar með ákveður undirmeðvitundin að nú skuli búin til stífla svo ég þurfi ekki að þjást inni á svona stöðum….. þarf að leita mér hjálpar ef ég á að meika svona fjallaferðir eða splæsa í ferðaklósett. En það var gott að komast í burtu, skipta um umhverfi og kúpla sig aðeins út úr hversdagsleikanum.

Ullarföt og jöklaúlpa – veitir ekki af þegar mér er alltaf kalt… og hundléleg í fatapóker

Orlofssjóður
Ég er hætt að skilja fólk sem segist vera að fara í frí út á land í tjald með börnin og kannski gæludýrin. Útilegur eru aldrei 100% frí nema fyrir börn þar sem foreldrarnir gera og græja allt. Og núna er ódýrara að kaupa pakkaferð til Spánar en að keyra gamla díseljeppann fullan af drasli og fólki dragandi tjaldvagn í önnur póstnúmer norður í landi. Fyrir utan að gráta á bensínstöðinni í upphafi ferðar þegar bíllinn er fylltur, kaupa svo allskonar í vegasjoppum handa suðandi krakkakrumpum á leiðinni á maður eftir að borga sig inn á tjaldsvæði, borga fyrir rafmagn, borga veiðileyfi eða aðrar upplifanir, kaupa svo meiri mat í rándýrum kaupfélögum, fara á söfn og í sund. Borga svo allt uppá nýtt á öðrum stað því við erum jú að elta sólina.

Mikilvæg regla sem verður að virða að það má alls ekki má opna skottið á bílnum í svona fjölskylduferð fyrr en komið er á áfangastað. Það gæti verið lífshættulegt því þar fellur mjög trúlega fram draslskriða sem samanstendur af allskonar stórhættulegum en nauðsynlegum hlutum s.s kæliboxi, hjólahjálmum, golfkylfum, frisbídiskum, boltum, fatapungum, berjatínum, gítar eða öðrum hljóðfærum, veiðistöngum o.fl. sem er ekki svo auðvelt að koma aftur fyrir á sinn stað. Og sjúkrakassinn er einhversstaðar grafinn neðst undir sætunum.

Svo er tjaldað og tjillað og grillað og svo á eftir að þrífa allt plast leirtauið og hnífapörin og glösin. Fyrst stendur maður í röð til að komast að í stálvaski með ísköldu vatni þar sem sveittur loðinn túristi var að enda við að þvo á sér klofið og tannbursta sig. Ég hef verið á mörkunum að kveikja bara í fitugu skítugum diskunum og tjékka mig svo inn á hótel, en svo sér maður hvað krökkunum finnst gaman að leika sér í öðru umhverfi og þá bráðna ég. Það er því kannski ekkert skrítið hvað foreldradrykkja er áberandi á tjaldsvæðunum – allir að lifa og njódda (eða lifa bara af).

Morgunmaturinn borðaður úti. Þetta fór svo bara beint í uppþvottavélina heima nokkrum dögum seinna!

Eyrnatappar eru í vasa í svefnpokanum því ég er mjög veðurhrædd og sef ekki í roki (það var gul veðurviðvörun í þessari Hagavatnsferð!) og Tolli hrýtur og unglingurinn talar upp úr svefni og svo á kvöldsvæfa ég það til að tjalda óvart inná miðju ættarmóti eða í saumaklúbbastuði þar sem fólk getur vakað og gólað og sungið fram undir morgun. Yfirleitt eru þetta lög sem ég fæ svo á heilann í marga daga á eftir. Og meðan ég festi blund, á góðu mjöðminni rétt fyrir sólarupprás, sé ég rúmið mitt heima í hyllingum og vatnsklósett.

Svo þarf að taka aftur saman. Blæðingar og/eða blóðnasir í svefnpokum, fuglar sem halda að tjöld séu klósett eru ekki til að trukka upp stemmninguna við tiltektina, hvað þá þegar barn hefur laumað smjörstykki ofan í ullarfatatöskuna daginn sem kom hitabylgja og eitthvað vafasamt lak ofan í kæliboxið með tilheyrandi lykt.
Loksins kemst maður aftur heim eftir þetta líka afslappandi og fína frí ahhhhhhh. En ef maður vogar sér að elta ekki sólina og lendir í rigningu eða slyddu þá taka við nokkrir dagar í þurrkun á svefnpokum og tjaldi og fortjaldi og skjólvegg, bomsum og fötum sem er dreift um bílskúrinn og hálft húsið. Og ef einhver á skilið að fá fálkaorðuna eftir svona heimkomu þá er það elsku besta þvottavélin mín.

Orlof húsmæðra
Við þessi skrif rifjuðust upp ferðalög þegar ég var barn og ég er enn að klóra mér í hausnum yfir því hvernig mamma mín gat farið með okkur systur og vinkonu okkar, í viku í sumarbústað árið 1982 án þess að missa vitið. Þar sem var ekki rafmagn eða rennandi vatn. Það þurfti að bera allt dótið úr bílnum leið frá veginum því það var ekki neinn slóði upp að húsinu. Við sóttum líka allt vatn (í matargerð og í klósettkassann) úr læk sem var töluverðan spotta frá. Mamma mín er eldhræddasta mannvera á þessari plánetu og eldunargræjurnar og ljósin í húsinu voru gasluktir, gaseldavél og olíuofn, kerti og eldspýtur. Ef það hefði kviknað í þá var auðvitað enginn sími nema í margra kílómetra fjarlægð. Og það var ekki einu sinni hægt að senda okkur í símann eða spjaldtölvuna til að fá smá frið né kaupa sér bjór á þessum árum til að róa taugarnar!! Þarna var mútta ekki á sjö manna LandCruiser með tengdamömmubox eða kerru fyrir helstu nauðsynjarnar. Heldur skrönglaðist hún austur á malarvegi með okkur og allt sem við þurftum á Austin Mini!

Netsálin

July 27th, 2022

Ég man þegar ég fékk fyrsta vonda eða neikvæða kommentið á bloggið mitt væntanlega einhvern tíma í kringum 2003. Ég var flutt til London og skrifaði um lífið og tilveruna þar og það voru bara vinir og kunningjar okkar Tolla sem nenntu að lesa síðuna, enginn tímdi að hringja í okkur. Síðan óx lesenda´hópurinn og maður fékk eitt og eitt ókunnugt komment hæ ég er vinkona X, gaman að fylgjast með lífinu í London hjá þér blblblblbl og allir kynntu sig h´átíðlega og kommentin voru jákvæð og skemmtileg. Svo eitt kvöldið fór netlífið á hliðina. Einhver kona sem ég þekki ekki neitt fannst hún knúin til að segja mér til syndanna. Hvað ég væri nú mikið fífl að skrifa svona færslu (sem ég hreinlega man ekki í dag um hvað var). Ég varð algjörlega miður mín. Fékk ógleði, skitusting og allan kvíðapakkann með tilheyrandi svefnleysi. Hvað átti ég að gera? Hvernig átti ég að bregðast við þessu? Hunsa? Svara? Og almáttugur minn, þá hvernig? Man að við Tolli sátum og ræddum þetta fram og til baka og mig minnir að á endanum hafi ég hent út kommentinu hennar og/eða greininni allri.

Ég hef lesið sumt af gamla efninu hérna inni og ég kuðlast öll saman inní mér við lesturinn og myndi aldrei segja marga hluti í dag sem ég gerði þá úfffff. Ó þú óþroskaða stelpudrasl! – Kannski hafði kommentaherfan rétt fyrir sér eftir allt saman??? – kannski var ég dóni og særði einhverja djúpt án þess að gruna það. En ég hef lært og elst og vonandi þroskast eitthvað andlega síðan ég byrjaði að hnoða þessu saman í den. Og eftir önnur 20 ár mun ég vonandi lesa þetta og hneykslast ógurlega í ruggustólnum mínum hvað ég var nú ung og mikill óviti (nærri fimmtug!!) og nett klikk.

Allt kom vel út í þessari skoðun. Mynd: BBC

Breska ríkissjónvarpið og fleiri stöðvar hafa sett fyrirvara eða viðvörun á skjáinn áður en þeir endursýna gamalt efni eins og t.d Benny Hill eða Carry On myndirnar. This is a classic comedy which reflects the broadcast standards, language and attitudes of its time. Some viewers may find this content offensive.

Þetta var það sjónvarpsefni sem ég ólst upp við og tók upp á VHS spólur og horfði svo á aftur og aftur. Það þótti t.d óskaplega fyndið að sjá gamla karla klípa í rassinn á ungum konum á bikini og þær bara flissa að öllu saman eða lemja þá í hausinn með pönnu (sem var auðvitað miklu fyndnara og það eina rétta í stöðunni).
Sem betur fer er tíðarandinn annar í dag en til öryggis er kannski best að ég setji líka varúð hér efst á síðuna til að fyrirbyggja öll leiðindi ef einhver álpast til að lesa eldri færslurnar og svo auðvitað ef einhver les þetta úr framtíðinni.

———————————————

Óþolandióþol
Þó svo að ég hafi þroskast eitthvað innan í mér þá er ég enn ekki nógu sterk fyrir samfélagsmiðlana og grimmdina, kommentin og dónaskapinn sem fólk leyfir sér þar inni. Ég er komin með óþol. Ekki fyrir glúteini eða mjólk heldur nánast öllum samfélagsmiðlum. Samkvæmt síðustu færslu hérna var óþolið komið fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan og hef ég ekki gert neitt til að minnka einkennin svo mér líði betur.
Instagram sem var uppáhaldið mitt, er núna bara fullt af auglýsingavídeoum og drasli frá ókunnugu fólki sem mig langar bara alls ekkert til að skoða. Ég er alveg hætt að sjá ef vinur setur inn fallega ljósmynd þar sem forritið er smám saman að breytast í athyglissjúkt gargandi Tiktok.
Ég hangi enn inni á Facebook því þar eru árganga- og tómstundahópar barnanna ásamt öðrum nauðsynlegum grúbbum sem ég verð að kíkja í reglulega til að vera ekki útskúfuð úr samfélaginu – því gleymna ég svaraði ekki pósti um afmæli eða skírn.
En annars er Facebook hreinlega eitrað. Fólki finnst sjálfsagt mál að samhryggjast með hjarta á vegg fólks sem hefur misst ástvin en segir svo ekkert þegar það hittir viðkomandi næst úti í búð nema: „ne hææ hvað segirðu?“ – því það þarf ekkert að votta meiri samúð, grátkallinn í kommentinu var bara fínn og alveg nóg.
Fólk sem ég hef litið upp til af ást og virðingu finnst það stundum þurfa að sýna gáfur sínar og mátt og drulla yfir fólk og fyrirtæki með skætingi yfirlæti og/eða rangfærslum. Og ef einhver vogar sér að leiðrétta það eða er því hreinlega ósammála – kemur annað hvort þögn, færslu eitt, viðkomandi hent út úr hópnum og allskonar hegðun sem fyrirfinnst bara í netheimum. Aldrei já þú meinar, takk, já þetta er rétt hjá þér eða fyrirgefðu. Svo þegar ég hitti einhvern af þessum alvitru vinum mínum í mannheimum, læt ég eins og ekkert sé, brosi og passa mig á að breyta umræðuefninu því ég hvorki kann né nenni að rífast.

Ég hef reynt að setja bara inn jákvætt efni á Snapchat og Facebook eftir að lenda í kommenta-hakkavélinni fyrir nokkrum árum þar sem mín skoðun (eða reyndar spurning) var jörðuð og ég væri bara rugludolla að styðja ákveðinn málstað. Ótrúlegasta fólk þurfti að segja mér að ég væri nú bara virkilega vond eða vitlaus og setti mig þar með alveg út af laginu. Síðan þá geri ég allt annað á Facebook en að deila fýlu og hörmungum því það er sko nóg af fólki í vinnu við það þarna inni. Þrátt fyrir allskonar líðan, tilfinningaflækjur og venjuleg leiðindi hef ég nánast bara notað þann miðil eins og hálfgerða Pollýönnudagbók og deilt fyndnum atvikum, orðum og gjörðum uppátækjasömu barnanna minna eða sagt frá einhverjum klaufaskap eða vangaveltum sem mögulega gæti fengið fólk til að hlæja eða a.m.k brosa.

En þar sem ég finn að ég hlæ orðið æ sjaldnar sjálf, vegna þess hvað samfélags- og fréttamiðlar hafa vond áhrif á taugakerfið, ætla ég að breyta til.  Ég get ekki þetta súra netsamfélag lengur og skoðnaræpuna sem lekur og frussast upp um allt. Nú vel ég mér miðla sem ég vil vera partur af t.d Substack þar sem ég fæ að vera í friði í lokuðum hópum þar sem allir koma fram undir nafni og af virðingu og þó fólk sé ósammála þá er það bara allt í lagi.

———————————————

Tímavélin
Ég sakna að taka gamla blogghringinn minn með morgunkaffinu hjá vinum og fólki sem mér þótti áhugavert og skemmtilegt og kannski leggja orð í belg undir færslu án þess að fá magapínu hvort einhver vitrari en ég muni kommenta á mitt komment og gera þar með lítið úr mér.

Ekkert var meira hipp og kúl en hinn gullfallegi Bondi Blue iMac 1998


Ég ætla því frá og með deginum í dag að láta mér líða betur í netheimum. Ég fer aftur í tímann og verð hipp og kúl með því að lífga við þessa hundgömlu bloggsíðu (muniði eftir Myspace, Napster og nammilituðum apple tölvum og upphringitóninum til að tengjast rándýra internetinu… good times). Ætla að leyfa puttunum að taka við skipunum frá hjartanu og heilabúinu, pikka á lyklaborðið með öllum mínum stafsetninga- og/eða orðavillum og halda áfram með þessa annars ágætu dagbók sem þetta var áður en Facebook fæddist.
Ég sé strax fram á hressari tíma þar sem áhrifavaldar og algorithminn ákveða ekki fyrir mig í hvernig inniskóm ég á að vera og hvort ég þurfi að fara í bráðnauðsynlegt brúnkusprey eða skella mér í augnlazeraðgerð á tilboði, kaupa hamingjudöðlur eða skella mér á bogfiminámskeið.
Góðar stundir

Ritræpa

June 14th, 2021

Ég er komin með samfélagsmiðlaóþol. Auglýsingaflóð, röfl, væl, reiði, filterar, áhrifavaldar, góða fólkið, neyslutryllingur, allir að deila, o.fl. drasl. Sakna að taka blogghringinn á morgnana með morgunkaffinu. Lesa hvað vinir mínir voru að bralla og spá og spekúlera (og allskonar áhugavert fólk sem ég var búin að þefa uppi).

Eftir nokkur ár í dvala á ónýtum server lifnaði síðan mín svo aftur við í gærkvöldi. Það var eins og ég stigi út úr tímavél og hafi misst minnið, því þegar ég fór að lesa hvað á daga mína hafi drifið mundi ég bara brotabrot af öllu þessu röfli. Hrund.com var sett upp meðan það var í tísku að blogga og ég gerði þetta nú aðallega til að vinir og vandamenn gætu fylgst með lífinu í London. 

Ég krullaðist hreinlega upp inni í mér af aulahrolli að lesa þetta. Sumt virkilega skemmtilegt en annað úffffff….. Þvílíkir fordómar og drulla og allskonar vanvirðing og sérstaklega gagnvart sjálfri mér (hef greinilega verið að reyna að verða mjó í átta ár). Og svo set ég Hehe óþægilega oft í lokin á færslunum, en vonandi var það inn á þessum árum. 

Dagbókarfærslurnar um óléttur og börnin og ömmur mína og afa eru gull, og ég tala nú ekki um að fara aftar og lesa um uppáhalds nágranna minn, Tarzan og samskipti okkar. Dvölin á sambýlinu með drengjunum í Bow var mjög lærdómsrík fyrir mig og þá, og fyrst þetta er aftur komið í loftið eiga þeir engan sjéns á forsetaframboði eða fínni stöðu í sendiráðum í útlöndum. Líka gaman að rifja upp alla skrítnu nágrannana mína og öll badmintonmótin og ferðalögin og fólkið sem við kynntumst á þessum árum. Eigum heimboð í hverri heimsálfu eftir þessa búsetu í uppáhalds borginni minni þar sem ég kynntist allskonar fólki og menningu. Þetta þroskaði mig og ég fékk aðra sýn á lífið og kann að meta hluti öðruvísi en margir sem hafa aldrei fært sig úr stað.

Ég ætla að leyfa þessu að lifa aðeins lengur með vangaveltum og því sem heilabúinu dettur í hug að henda hingað inn, en vona að ég hafi þroskast örlítið síðan ég ræsti þetta árið 2003.

Fabjúlus Icelandair

November 28th, 2016

þennan flotta íþróttafatnað á netinu……. og flugleiða-logoið þeirra :)

Screen Shot 2016-11-28 at 15.18.07

Screen Shot 2016-11-28 at 15.19.43

Tvöföld fegurð

July 7th, 2016

Er að gera mig sætari með andlitsmaska og gera mig sætari um leið í símanum. Búin að grenna mig í framan, setja á mig brúnku og stækka annað augað. Ómótstæðileg!

Glæponapartý

June 28th, 2016

13krimmar

Bókin okkar er að koma út.
Allir velkomnir :D
Meira hér

Svona er stemmningin hjá mér í kaffinu

June 14th, 2016

 

Hjólaði upp í fjall………

soundofmusic

Glen(n)

May 16th, 2016

  

Viðeigandi auglýsing dagsins

February 28th, 2016

augl

Tískublogg

February 21st, 2016

  

Óviðeigandi opnan

February 21st, 2016

  

Óveðrið

December 8th, 2015

#gosifeiti

  

#gosifeiti

December 1st, 2015

Liggaliggalá………ég vann 2-3 verðlaun í samkeppni hjá snillingunum Reykjavík Letterpress fyrir nafnspjald sem ég gerði fyrir Gosa minn. Ekki oft sem maður fær að hanna nafnspjald fyrir einhvern eða eitthvað sem hefur akkúrat ekkert við hlutinn að gera. Hann á ekki einu sinni veski til að geyma þetta í.  Og við komum í Mogganum!!!

Setti spjöldin inná síðuna mína hérna ef þið viljið skoða og svo er hægt að sjá hin vinningsspjöldin á Facebook hjá Reykjavík Letterpress.

Takk fyrir mig :)

Ljósmyndirnar tók Anton Bjarni Alfreðsson

12308028_1061373170574298_1298999502085831420_o

Tvífarar vikunnar

September 25th, 2015

Fuzzy stóllinn og ég

(Gosi feiti kisi er bara til skrauts)

tvifarar

Ég er kona…

August 4th, 2015

… ég nota nú bara Plútó – það hæfir svona mínu vaxtarlagi!! Þessi gullna setning var í áramótaskaupi 1700ogsúrkál. 

Þessi mynd fer í sögubækurnar þar sem ég var að prófa eldrauðan varalit í fyrsta skipti….. Finnst ég nú loksins hafa fullorðnast. Lúxusvandamál

July 3rd, 2015Iittalalalala

June 9th, 2015

Jæja á miðinn að vera á eða af ???Trufl

June 9th, 2015

þegar maður er að skrifa mjög merkilegan tölvupóst og vill enga truflun…

Lóan er komin

May 12th, 2015